<$BlogRSDUrl$>

Vores hjemmeside

föstudagur, febrúar 27, 2004

Núna erum við allar fimm systurnar komnar til Íslands til að æfa með landsliðinu. Því miður gátum við ekkert sagt undanfarna daga að við værum á leiðinni því að Inga Fríða ætlaði að koma Andra og mömmu sinni á óvart og Hanna að koma foreldrum sínum á óvart. Og ég held að það hafi tekist. En annars verðum við hérna fram á þriðjudag. Fórum á landsliðsæfingu í gær og það var rosa fínt og gaman að sjá fullt af nýjum ungum stelpum sem eru komnar í hópinn, ég er allavegana komin langt yfir meðalaldur. Það er nóg að gera hjá mér í dag því að ég og mútta erum að fara saman í klippingu og strípur á eftir og síðan ætlum við að skella okkur í búðir. Ég er ennþá að velta því fyrir mér hvernig ég eigi nú að klippa mig því að undanfarið hef ég verið að safna hári, sem gengur reyndar frekar hægt, og ég held að ég gefist ekki alveg upp á því strax. Á morgun er síðan nóg að gera, tvær æfingar, tveir bikarleikir og svo er útskriftaveisla hjá kærasta systur minnar. Það vill nú reyndar svo óheppilega til að handboltaáhugamaðurinn hún systir mín hefur veisluna á sama tíma og bikarúrslitaleikur karlanna þannig að ætli maður verði ekki bara að taka hann upp og horfa á hann þegar maður kemur heim. En nenni ekki að skrifa meira..........
Hafið það gott

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

AND THE WINNER IS........ Verð nú að segja að Danir eru bara ,,snillingar"... Þeir verða alltaf jafn hissa þegar það snjóar og það gerist nú ekkert of sjaldan. Það var einmitt síðast í gærmorgun að það var smá snjór á götunum en reyndar mjög mikil hálka og töluðu nú margir Danirnir um ,,snjóstorminn" kvöldið áður. Jújú snjóstormurinn skildi eftir sig heila 3 cm af snjó á jörðinni þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur.. En svo er það helsta vandamál Danans en þeir geta engan veginn keyrt í svona veðri og það væri hægt að búa til snilldarefni fyrir popptíví um Danska ökuþóra í hálku.. Við erum að tala um það og þetta er satt að flest umferðaskilti bæjarins steinliggja eftir gærdaginn. Ég var alvarlega að hugsa um að grandskoða bæjinn og telja öll ónýtu skiltinn. En það er nú ekki það versta því ótvíræður sigurvegari gærdagsins var ökumaðurinn sem afrekaði það að keyra í gegnum leikskólann hennar Viktoríu.. Þetta er ekki grín. Kl. rúmlega átta í gærmorgun tókst einhverjum að bomba inn í leikskólann hennar þannig að það kom gat í gegnum húsið.. Og við erum að tala um það að bílinn keyrði akkurat inn í dúkkuhúsið á leikskólanum sem er á tveimur hæðum, rosa flott. En neðri hæðin er sem sagt í mauki núna. Sem betur fer var ekkert barn að leika sér þarna.. Það er eins gott að þessir vitleysingar fái að taka upp budduna sína á meðan ég er að borga hraðasektir fyrir að keyra á 58 km hraða. Stórhættuleg í Danaveldinu á póstbílnum...
Varð að skjóta þessu inn en annars er löngu komin háttatími eins og nánast alltaf þegar ég skrifa inn á þessa síðu. Viktoría greyið orðin veik, vaknaði áðan og gubbaði þessi litla elska.. Þannig að við verðum bara heima á morgun og huggum okkur eins og Daninn segir...

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Jæja... það er nú gott að fólk var ánægt með kræsingarnar enda var maður sveittur eftir að hafa verið á fullu að baka. Ég er þó stoltust af vatnsdeigsbollunum mínum sem tókust alveg prýðilega og svo slógu salsasamlokurnar hans Valda alveg í gegn. Svo fengum við pakka frá fólkinu og ég fékk þessa svakalegu pæjupeysu og bol og Valdi kaldi fékk skvassspaða sem vakti mikla lukku. Og núna á þessari stundu eru karlarnir einmitt í skvassi.
Ég var að koma heim af æfingu og ég get svarið það að ég er gjörsamlega búin enda var þjálfarinn að láta okkur markmennina púla og maður var ekki neitt rosalega léttur á sér þar sem ég var einnig að lyfta í morgun. En ekki það að ég sé að kvarta því að mér finnst auðvitað skemmtilegast að púla!!!
Það er nóg að gerast framundan en ég segi frá því seinna, kannski um helgina ef ég nenni.
Bæjó

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Verð nú bara að segja ykkur að kræsingarnar í afmælinu hjá Helgu og Þorvaldi voru rosalegar.. Við systur erum búnar að borða svo viðbjóðslega mikið þessa helgi að menn muna varla annað eins.. Við erum að tala um það að engin okkar hafði lyst á að búa til bollur í kvöld.. Og örugglega ekki á morgun heldur.. En kræsingarnar fóru bara svona vel í okkur að við unnum stærsta sigur okkar í vetur í dag.. Leikurinn endaði 44-20, ekki slæmt það.. Við erum alveg sannfærðar um að gott gengi liðsins sé auðvitað átinu að þakka þannig að það er búið að ákveða að yngri verði með matarklúbb fyrir næsta leik.. En þær eru búnar að lýsa því yfir að þær ætli ekki einu sinni að reyna að toppa okkur.. Enda er það auðvitað ekki hægt....
En allavega Helga og Þorvaldur þúsund þakkir fyrir okkur...

laugardagur, febrúar 21, 2004

Vikuuppgjörið.....
Er búin að kvíða mikið fyrir að byrja þessi skrif þar sem ég á eftir að segja svo mikið enda búin að vera viðburðarmikil vika.. Fimmtudaginn 12. feb lögðum við litla fjölskyldan af stað til Þýskalands á Póstbílnum okkar sem er rauð Toyota Yaris Verso, alveg eins bíll og pósturinn Páll á nema það vantar bara gula lúðurinn á okkar. Samt fínasti fjölskyldubíll... Ætlunin var að bruna niðureftir til Dagnýjar systu en það voru nú ekki nema 840 km þangað.. Vorum rétt rúma 8 tíma á leiðinni og var mjög gaman að komast á leiðarenda.. Það hræðilegasta við þessa bílferð að það var enginn McDonalds við hraðbrautina og ég get svarið það að ég keyrði fram hjá fleiri IKEA búðum á leiðinni. Hef alltaf sagt að Þjóðverjar væru skrítnir en HALLÓ það er ekki hægt að hafa fleiri IKEA búðir við hraðbrautina en McDonalds.. Ég var bara með tárin í augunum hálfa leiðina. Er ennþá að velta fyrir mér hvernig Hrabbý mathákur geti búið þarna.. Hrabbý mín maður gerir nú ekki allt fyrir karlinn..
En nóg um það við komumst allavega heil til Dagnýjar rétt eftir miðnætti og tók við mikið knús knús þar sem Dagný og Viktoría voru fremstar í flokki.. Dagnýju leiddist það nú alls ekki og ekki versnaði það þegar Viktoría var gallhörð á því að hún ætlaði bara að sofa hjá Dagnýju og Gunna og það gerði hún að sjálfsögðu allar þrjár næturnar sem var bara mjög gott því morgunvaktirnar fylgdu auðvitað frítt með og fengum við Viktor bara að sofa út.. Mjög sátt.. Veit samt ekki alveg hvort Gunnar Berg hafi verið jafn sáttur þar sem Viktoríu tókst að sparka í andlitið á honum eina nóttina.. Hún er auðvitað bara keppnis... Við höfðum það rosa gott hjá systu og tókum við systurnar okkur til og elduðum nautalundir handa körlunum okkar á laugardeginum og tókst bara ágætlega til.. Strákarnir kíktu á körfuboltaleik hjá liðinu hans Loga Gunnars og þar var heldur betur fjör.. Troðfull höll og allt vitlaust, slagsmál upp í stúku og dómarinn að rífast við áhorfanda sem síðan var hent út.. Datt varla í hug að það gæti allt orðið vitlaust á körfuboltaleik (leikur án snertinga).
Á sunnudeginum var síðan haldið heim á leið en það var auðvitað ekki hægt að yfirgefa Þýskalandið án þess að skoða nýjasta prinsinn hann Lúkas litla. Við tókum því smá aukakrók (enda ekkert ,,löng" keyrsla) og komum við í Dusseldorf.. Það var reyndar alltaf áætlunin að stoppa þar lengur en hún Eibba mín þurfti endilega að bíða alltof lengi og að auki að láta skera í sig þannig að hún var bara ný skriðin heim af sjúkrahúsinu (kom um morgunin). Þannig að við stoppuðum bara í rúmar tvo tíma og fengum nánast að vera með Lúkas litla allan tímann.. Ég get nú bara sagt ykkur að hann er bara lang sætastur. Algjört æði.. Og hann er bara nánast tilbúinn inn á handboltavöllinn.. Með lengstu putta í heimi.. Hann verður brjáluð sleggja eins og mamman.. (Auðvitað alveg ótrúlegt að hún var aldrei skytta).. Nú tekur við löng bið þangað til ég fæ að sjá snúlluna mína aftur. Eivor og Alex þið verðið að vera dugleg að minna hann á mig...
Svo verð ég nú að segja frá heimleiðinni en ég var orðin frekar lúinn en fannst nú leiðinlegt að sofa bara bílnum á meðan hann Viktor greyið keyrði þannig að ég fann mér nýtt áhugamál.. Haldiði að ég hafi ekki farið að telja trukka.. Klukkan var orðin yfir tíu á sunnudagskvöldi og við mættum bara endalausum trukkum þannig að Hrafnhildur byrjaði bara að telja.. Og viti menn 235 trukkar á 20 mínútum, ótrúlegar tölur.. Verð nú samt að viðurkenna að eftir þessar tuttugu mínútur varð ég að leggja mig aðeins og Viktor bara ánægður með það.. Hefur örugglega haldið að ég væri alveg að tapa glórunni.. En við afrekuðum allavega þessa helgi að keyra rúmlega 1800 km sem skiptist frekar jafnt niður, ég 200 og Viktor rest.. Ekki það að ég vildi ekki keyra meir, Viktor ekki alveg að treysta kerlingunni.
Svo var það þriðjudagurinn 17.feb þegar hún Helga mín átti afmæli og við komum henni á óvart.. Algjör snilld að koma henni á óvart. Ég er nú bara strax farin að hugsa hvenær ég geti komið henni næst á óvart, það er bara ekki möguleiki að fá skemmtilegri viðbrögð en frá henni.
Svo er það miðvikudagurinn en þá fékk ég senda mynd af mér í póstinum.. Frekar leiðinlegt það því ég hef fengið nákvæmlega eins mynd áður og ekki nóg með það heldur var hún tekin á nákvæmlega sama stað og síðast.. Jú jú hraðasekt takk fyrir og Hrafnhildur glæpamaður heldur betur sek.. Keyrði á 58km hraða innanbæjar, heilum 8 yfir löglegum hámarkshraða.. Ég get svarið það að ef ég sé þennan andskotans bíl aftur þá ætla ég að kveikja í honum, þarf bara að vera viss um að ég kveiki í myndavélinni líka.. Þekki nú heldur betur bílinn og meira að segja athuga ég alltaf hvort hann sé þarna, gleymdi mér bara aðeins í smá stund..
En dagurinn í dag og dagurinn á morgun snýst einungis um það að éta og þar er ég nú aldeilis á heimavelli því við erum alls ekki að tala um hollan mat.. Hlakka mikið til að fara í afmælið til Helgu og Þorvalds á morgun enda mikil leynd í gangi með kræsingarnar..
Jæja verð nú að stoppa, allir örugglega löngu búnir að gefast upp á að lesa þetta allt en fyrir þá sem lesa ,,ÞETTA" þá segi ég bara til hamingju.. Ótrúlegur árangur...
Kveðja
Hrabba glæpon..
Ég held bara að ég sé að koma sjálfri mér á óvart núna en ég er að baka og ég held bara að það sé að takast nokkuð vel. Ég ætla nú ekki að gefa upp strax hvað ég er að baka því að ég vil ekki leyfa krökkunum að vita hvað við erum að fara að bjóða uppá á morgun. Ég og Þorvaldur ætlum nefnilega að halda upp á afmælið okkar saman á morgun og það verður bara hefðbundið kaffiboð. Þannig að það verður nóg að gera hjá mér í kvöld og hjá okkur á morgun í tiltekt (veitir ekki af) og í eldhúsinu. Annars er karlinn núna á leiðinni frá Köben en þar var hann sem sjúkraþjálfari með karlaliðinu og hann kemur ekki fyrr en seint í nótt. Eftir æfinguna í dag var "Habbas madklubb" og við eldri stelpurnar elduðum fyrir þær yngri og þvílíkar kræsingar og ég hef nú þokkalegar áhyggjur af því að fólk verði ekki búið að jafna sig eftir átið í kvöld og hafi þ.a.l. ekki lyst á kökum á morgun. Það væri nú réttast að hafa bara heilsuafmæli svo að maður líti nú ekki eins og kjötbolla eftir helgina. Ég var farin að hugsa um að taka mér alveg frí á morgun í ræktinni en er farin eitthvað að efast.
Núna verð ég að skreppa og kíkja í ofninn......læt ykkur vita hvort kræsingarnar smökkuðust vel.
Helga húsmóðir

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Ég skal segja þér það Helga mín að það er sko ekki leiðinlegt að koma þér á óvart þegar maður fær svona skemmtileg viðbrögð, en þú verður að átta þig að því að þú ferð alveg að ná mér, þú ert alveg að verða þrítug er það ekki ???
Þetta er nú ótrúleg vinna sem ég er í, ég fór til hjónanna sem ég þríf hjá og þá var mamma konunnar þar, vildi endilega að ég fengi mér kaffi og svo var spjallað um handavinnu, heppilegt hvað ég er öflug á því sviði "not" en ég gat samt sagt henni hvernig maður gerir veski úr ull sem verður svona loðið, hún vildi nefnilega endilega vita það og hafði greinilega trú á mér þar sem ég er frá Íslandi og þar er notuð svo mikil ull eða svo sagði hún mér..svo ég veit þetta allt hef bara ekki prófað.. við spjölluðum heilmikið og svo sagði hún mér að það væri lítið að gera því hún hafi bara farið inn í stofu til að vökva blómin, (ég held að mér sé ekki treyst fyrir þeim eftir að ég drap þau nánast öll)þannig að ég gæti bara straujað það sem hún var búin að þvo, ég er orðin ótrúlega öflug á straujárninu ég á meira að segja að strauja jakkafötin... Ég held að ég sé að verða hin besta húsmóðir eftir þessa dvöl hér í Danmörku...
Ég er orðin ótrúlega spennt fyrir laugardeginum þá ætlar Helga og Þorvaldur að bjóða okkur Íslendingunum í afmælisveislu og það er svo mikil leynd hjá henni Helgu hvað hún ætlar að hafa í boði .
Á föstudaginn er svo átkvöld hjá okkur stelpunum í liðinnu og við eldri eigum að sjá um það ,svo maður þarf að fara að finna upp á einhverjum kræsingum sem maður getur gert. Hugmyndir vel þegnar, ég er viss um að Hrabbý lumi á einhverju góðu, enda aðal karakterinn í svona átklúbbum ekki rétt??
Nú hætti ég áður enn allir fái leið á mér..
Það er nú búið að vera nóg að gera hjá mér undanfarna tvo daga. Hann Þorvaldur minn kom heim á mánudaginn og það var auðvitað frábært að fá karlinn heim. Síðan varð kerlan bara 27 ára í gær. Afmælisdagurinn byrjaði á því að fara í vinnuna og ég var ekkert að auglýsa það að ég ætti afmæli því að ég nennti auðvitað ekki að koma með neitt handa fólkinu. Eftir vinnu þurftum við í liðinu að keyra í rúmlega tvo tíma til að spila æfingaleik á móti Haderslev sem spilar í hinum riðlinum í 1.deild. Sem betur fer unnum við leikinn örugglega eftir að hafa byrjað hrikalega. Síðan þurftum við að keyra heim og vorum ekki komnar tilbaka fyrr en klukkan ellefu. Þannig að þetta virtist ekki ætla að verða neitt skemmtilegur afmælisdagur en.... Þegar við komum til Holstebro þá vissi ég að Þorvaldur og Steini voru hjá Viktori og fór þá bara þangað og Inga Fríða og Hanna "ætluðu" að fá lánaðan DVD hjá Hröbbu þannig að við fórum allar heim til Hröbbu og Viktors. Þegar ég kom inn til þeirra þá var tekið á móti mér með afmælissöng, heimatilbúnni pizzu og afmæliskökum. Þetta gerist ekki betra þannig að nú get ég sagt að ég átti frábæran afmælisdag. Elsku krúttin mín takk fyrir afmælisveisluna
Luv
Helga

mánudagur, febrúar 16, 2004

Ég held bara að ég sé að verða duglegust að skrifa eða hvað ??? Um helgina var lítið gert. Á laugardaginn byrjaði ég daginn á að fara í ræktina og svo tókum við Steini nokkra leiki í skvassi, helv... gaman hann vann reyndar 3 og ég 1 en þetta var hörku stuð allavega fékk ég helling út úr þessu, það er spurning með Steina.. Nema það að ég gat varla fengið mér að drekka fyrir strengjum í hendinni, greinilega ekki alveg með tæknina á hreinu.. ég held ég þurfi að taka nokkrar æfingar í þessu, fínt sport þegar maður hættir í bolltanum og svo verð ég líka að vinna Grétu svona einu sinni. Hugsa að það sé svolítið langt í það en gott að hafa eitthvað til að stefna á...Svo var horft á handbollta allan daginn slagelse var að keppa og ómægot hvað Anja þjálfarinn þar, er lík henni Ingu Dóru...Um kvöldið var svo partý hjá tveimur stelpum í liðinu við Hanna fórum fyrst til Kristínar og Steina og hann gerði þennan dýrindis Valentínusardrykk handa okkur og svo var stormað í partý, voða næs farið í ansi marga spilaleiki sem voru mis krefjandi en bara gaman að því, svo var farið í bæinn... Svo fór sunnudagurinn bara í það að slappa af og gera ekki neitt... Í dag var svo vinnudagurinn frekar stuttur hjá mér því hjónin sem ég þríf hjá eru í fríi, koma ekki heim fyrr en á föstudag, en ég þríf samt þar á miðvikud. og fóstudag þannig að ég þríf 3 svar sinnum meðan þau eru í burtu hvernig finnst ykkur ? getur varla verið mikill skítur þegar enginn er heima en svona er þetta ég dúlla mér eitthvað.... Bið að heilsa í bili.....

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Ég gleymdi.....
Niðurstöðurnar úr könnunninni um hvort að hún Hrabba okkar ætti að byrja aftur á að hella í sig eða halda áfram í bindindi voru:
54% sögðu að hún ætti að byrja að hella í sig aftur
40% sögðu að hún ætti að halda áfram í bindindi
6% var alveg sama
Alls var kosið 35 sinnum, bara nokkuð gott.
Þá er hinum fræga Valentínusardegi lokið og vitið hvað ég fékk bara ekkert Valentínusarkort, ég er bara hálf svekkt. Dagurinn var nú voða órómantískur hjá mér. Ég byrjaði á að skella mér í ræktina og þar á eftir kíkti ég í bæinn og lét mig dreyma um öll flottu fötin sem ég sá. Ég er gjörsamlega að tapa mér yfir öllum litunum sem eru núna, ekkert smá flott. Í gærkveldi borðaði ég svo saman með sex stelpum úr liðinu og þar á eftir var partý en ég lét það nú vera að fá mér eitthvað. Ég var komin heim um tólfleytið og sofnaði að vanda í nýja sófanum mínum.
Svo er karlinn minn að koma á morgun eftir að hafa verið á Íslandi síðan fyrir jól og í USA í viku, eins gott að hann komi með eitthvað fallegt handa kerlingunni. Þannig að ég er að pæla í að skella mér aðeins í ræktina núna til að hrista smá spik af svo maður líti nú nokkuð vel út þegar hann kemur. Hafið það gott.........

föstudagur, febrúar 13, 2004

jæja þá er ein vinnuvikan búin ekki það að ég sé að vinna það mikið að ég sé búin á því, nema hvað að ég er alveg búin í öxlinni, það er alveg á hreinu að ég tek ofan fyrir hreingerningafólki eftir þennan vetur þetta er drullu erfitt.. Ekki það að ég er orðinn hrikaleg öflug í þrifunum Dísa yrði meira að segja stolt af mér, ekki það að Kristín var hálf hneiksluð á mér þegar ég tók tannstöngulinn þegar ég var að þrífa vaskinn um daginn svo það er kominn nett Dísa í mig... Annars er loksins frí helgi og ekkert landslið og það var planið að við vínkonurnar ég og Lilja vínkona mín og kannski Vigdís ætluðum að hittast í köben en það var svona misskilningur að það verður ekkert úr því, leiðinlegt... afmælið hjá Hönnu gekk voða vel mikið borðað eins og okkur einum er lagið enda karakter á því sviði, en það sem stendur hæðst er að Viktóría kúkaði í klósettið eins og þið vitið sem fylgist með þessari síðu og fjölskyldilífi Hröbbu þá á Dísin okkar svo erfitt með að kúka í klósettið og bara vill það hreinlega ekki, en að sjálfsögðu fór ég létt með að láta hana kúka, ég skil ekki afhverju þau eru ekki löngu búin að láta þetta í mínar hendur.. Maður er sko ekki leikskólakennari fyrir ekki neitt.... Þannig að það urðu mikil fagnaðarlæti og svo fékk hún pakka sem Hrabba var löngu búin að kaupa ,rosa flottur gullkjóll,sem hún áttti að fá þegar hún gæti kúkað í klósettið, við vorum reyndar farið að halda að hann yrði fermingakjóllinn þar sem okkur fannst þetta ekkert ganga hjá henni.. En hún er algjör hetja... Það er vonandi að Dagný standi sig eins vel þar sem þau eru nú hjá henni í heimsókn yfir helgina..

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Jíbbí... Eivor mín búin að eignast strák.. Gekk reyndar ekkert alltof vel og hún endaði í keisara klukkan 23.30 í gærkvöldi en prinsinn er mættur og auðvitað lang sætastur.. Það skemmtilegasta við þetta allt saman er að ég er að fara til Þýskalands á fimmtudaginn þannig að ég verð bara með þeim fyrstu sem sér undrið.. Hlakka rosalega mikið til.. Ég heyrði í henni í morgun og hún var bara hress og kát.. Á að vera á spítalanum í viku en það kemur auðvitað ekki til greina.. Mamma hennar er hjá henni og hún er hjúkka þannig að hún hlýtur að geta séð um hana Eibbu mína.. Auk okkar eru líka pabbi hennar og systir að koma um helgina þannig að hún má ekkert vera að því að liggja inni á einhverjum spítala...
Annars var ég í Köben um helgina á þorrablóti Íslendingafélagsins. 900 manns á ballinu og rosa fjör. Það var ekkert smá sem ég lagði á mig til að komast á þetta blessaða þorrablót.. Við vorum að keppa á laugardaginn þannig að ég lagði ekki af stað fyrr en 17.15. Ég var í Köben 4 tímum seinna og auðvitað búin að missa af gómsæta matnum.. En ég var mætt hress í tjúttið og stóð mig bara vel.. Hefði nú orðið frekar súr ef að það hefði ekki verið gaman...
Svo er ég byrjuð að hita upp mallann fyrir morgundaginn en Inga Fríða er búin að vera að baka í allan dag fyrir afmælið hennar Hönnu sem er á morgun.. Ég mæti tvíefld á morgun enda búin að hita stíft upp í sykrinum undanfarið...

Jæja ég er búin að uppgötva það að ég er í engu formi til að fara út á lífið. Eftir laugardagskvöldið þá fékk ég blöðru undir fótinn mínn og hef verið að drepast í bakinu undanfarna tvo daga og ég er farin að rekja það til háhæluðu skónna sem ég var í. En auðvitað er besta lausnin við því að fara bara aftur út á lífið helgina eftir en núna eru einhverjar í liðinu farnar að plana annað partý næsta laugardag. Á morgun er ég að fara í svaka kökuboð hjá Hönnu og Ingu fríðu því að Hanna skvísa á afmæli á morgun og það á pottþétt ekki eftir að klikka því að gamla klikkar ekki í bakstrinum. Síðan eru Hrabba og fjölskylda að fara til Þýskalands á fimtudagskvöldið eftir æfingu og verða alla helgina. Svo var ég að frétta að Eivor og Alex væru búin að eignast lítinn prins og auðvitað óskum við þeim til hamingu með nýja fjölskyldumeðliminn. Þegar ég er búin að skrifa þetta ætla ég að setja skemmtilega könnun inn sem þið verðið auðvitað að taka þátt í. Þar á eftir verðið þið að kíkja á og taka þátt í könnuninni á heimasíðu Víkingsstúlkna því að þar er verið að kjósa um hvort að maður horfir á hina geysivinsælu og skemmtilegu sápuóperu Leiðarljós eða Nágranna. Ég er bara að átta mig á því að ég sakna bara Leiðarljóss aðeins, hálf dapurt!!!

sunnudagur, febrúar 08, 2004

Núna ligg ég bara eins og skata upp í sófa og er að reyna að ná mér af þynnkunni. Í gær kepptum við á móti Skjern og unnum með einu marki. Tæpar mátti það ekki standa því að við skoruðum sigurmarkið þegar fimm sek voru eftir og það var hornamaðurinn okkar sem gerði sig bara lítið fyrir og stökk upp fyrir utan og skaut. Eftir leikinn okkar spiluðu karlarnir sjónvarpsleik einnig á móti Skjern og unnu líka. Það var auðvitað troðfullt á karlaleiknum en höllin okkar tekur um 2300 manns og þar sem við kepptum á undan þá voru ótrúlega margir á okkar leik og í seinni hálfleik voru örugglega 1500 manns eða meira, ekki slæmt. Í gær var síðan svaka partý hjá Hönnu og kerlan fékk ekkert smá veglegar gjafir. Hún fékk frá liðinu gallabuxur, peysu og pæjubol og síðan fékk hún einnig aðra peysu frá okkur Íslendingunum. Frá Ingu Fríðu fékk hún úlpu, nærföt og rosa flott úr. Eftir afmælið var skellt sér í bæjinn og ég var allt kvöldið með Rikke sem er ein úr liðinu og við dönsuðum alla nóttina. Ég kom ekki heim fyrr en klukkan sex og Rikke svaf heima hjá mér því að hún á ekki heima hérna í Holstebro heldur í bæ sem er hérna rétt hjá. Eitt er víst að Hrabba og Viktor misstu af svaka stuði en þau hafa örugglega skemmt sér vel í Köben.
Á eftir verð ég að fara að sækja bílinn minn en hann er hjá Ingu Fríðu og Hönnu en fyrst ætla ég að horfa á handboltaleik sem byrjar eftir klukkutíma.
Annars er ekkert annað að frétta og því segi ég bless í bili....

föstudagur, febrúar 06, 2004

Jæja jæja.. Er aðeins að klikka, sorry.. Ég er bara ennþá að ná mér eftir tapið á laugardaginn og minn versta leik í mörg mörg ár.. Það er eins gott að ég rífi mig upp á laugardaginn á móti Skjern, leiðin getur allavega ekki legið niður á við hjá mér.. Ef það gerist þá er ég lögst á bakið og stend ekki upp aftur fyrr en maginn á mér bólgnar út... Ég ætti nú kannski aðeins að fara að passa hvað ég segi, ætti nú líka að vera hætt í handbolta eftir síðustu ummæli..
En annars er nú bara allt ágætt að frétta úr Holstebro. Skvísan okkar hún Hanna að halda upp á 25 ára afmælið sitt á laugardaginn en því miður kemst ég ekki þar sem ég er að fara með honum Viktori mínum á þorrablót Íslendingafélagsins í Köben. Það verður vonandi mjög gaman þar líka.. Samt mjög svekkt að missa af partýinu hennar Hönnu. En ég verð mætt hress á afmælisdaginn sjálfan þann 11.feb í kökurnar. Ég hef nú ekki mikið að gera í partý þar sem er verið að bjóða upp á áfengi, þar sem ég er nú hætt í því (góð afsökun).. Það er líka verið að beita mig svo miklum hópþrýstingi að ég er orðin ansi smeik að láta undan öllum frekjunum hér..
Ég var að panta ferð til Tyrklands í sumar, á reyndar eftir að staðfesta.. Það verður sem sagt brúðkaupsferðin í ár..
Ég verð nú líka að segja ykkur frá því að Inga Fríða og Kristín fóru yfir landamærin í gær til að versla (til Þýskalands fyrir þá sem eru alveg grænir) og það er bara rugl hvað allt er ódýrt þarna.. Fimm kassar af bjór (150 dósir) kostuðu 400 kr danskar, bara svipað og heima... Svo keyptu þær mörg kíló af sælgæti, ég hefði gjörsamlega tapað mér þarna. Ég er búin að vera í tómu rugli undanfarið, hef enga lyst á mat lengur. Vil bara borða nammi og margra ára vani að opna alltaf ísskápinn um leið og ég kem heim er búin að breytast þannig að ég opna alltaf nammiskápinn núna.. En það verður vonandi bót í máli því hún múttan mín er að fara að senda mér sykurplástur í dag.. Það á að virka eins vel og reykingaplásturinn þannig að nú verður gaman að sjá.. Hvernig er það annars þarf viljinn ekki líka að vera fyrir hendi....

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Ég var nú alger kjáni í dag. Ég var bara í sakleysi mínu á internetinu og sá að hann Þorvaldur var "online" og byrjaði bara að spjalla við hann. Hann var eitthvað að röfla yfir því að hann saknaði mín og ég sagði auðvitað það sama. Svo spjölluðum við eitthvað smá meira saman en sem betur fer sagði ég ekkert ósæmilegt því að allt í einu kom þetta upp: "Þetta er Veigur og Rúnar en Þorvaldur gleymdi að logga sig út af msninu". Þannig að ég var að spjalla við þá en ekki Þorvald. Frekar skondið en eitt er víst að ég á eftir að hefna mín.

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Jæja þá er komið að því, það var annað hvort að taka mark á þessum 4 % eða 96 % og er ekki best að láta meiri hlutan ráða.. Annars veit ég ekki alveg hvað ég á að bulla hér, en látum vaða.. Í dag var ég að vinna og á því frí á morgun ég vinn bara 3 daga í viku frá 6-13 brjálað að gera, not.. Helga lánaði mér förðunar spóluna sína og ég er búin að liggja yfir henni, svo var Hanna módel áðan, ekki merkilegt nema það að hún sofnaði og er búin að sofa í klt. með hálft andlitið farðað og ekki einusinni búin að sjá afraksturinn og ég ekki heldur allavega ekki þegar hún er með opið augað, en það verður spennandi að sjá.. Það er allavega stefnan að við Íslendingarnir sem ætlum að mæta í afmælið til Hönnu (Hrabba ætlar nefnilega ekki að mæta) ætlum að hittast strax eftir leik og finna okkur til fyrir gleðina, Kristín er búin að panta hjá mér greiðslu og förðun.. Þannig að það verður brjálað fjör hjá okkur..
Er þetta ekki bara gott hjá mér í bili? og Hrabbý þar sem ég er alltaf í fríi þá er ég alltaf að gera einhverjar kræsingar svo þú bara mætir og við búum til eitt karaktersboð...


Ég ætlaði heldur betur að standa mig. Ég var búin að skrifa nokkrar línur, svo bara gerðist ekkert, það kom ekki inn á síðuna svo það er kannski merki um það, að ég á ekkert að skrifa neitt. Enn ég sendi Helgu línurnar og hún reddar þessu.. svo núna fer ég að skrifa. Þarf greinilega að læra eitthvað betur á þetta...

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Niðurstöður úr könnununni:
96% vilja að Hanna og Inga Fríða skrifi inn á síðuna. Þannig stelpur það þýðir ekkert annað núna en að byrja á því.
Ég verð nú að viðurkenna að mig langar ekkert að skrifa inn núna í dag. En maður verður víst að gera það. Í gær kepptum við á mót efsta liðunu og töpuðum með heilum 7 mörkum, frekar ömurlegt. Við fengja alveg nóg að tækifærum en nýttum okkur þau ekki. En það þýðir víst ekki að heng haus því á laugardaginn eigum við erfiðan leik á móti nágrönnunum í Skjern.
Á laugardaginn eftir leikinn ætlar Hanna halda upp á 25 ára afmælið sitt og það á örugglega eftir að vera svakalegt stuð enda mánuður síðan við skemmtum okkur.

mánudagur, febrúar 02, 2004

Jæja þá er ein önnur helgin að vera búin. Hún hefur verið frekar tíðindalítil en mestum hluta hefur maður eitt upp í sófa horfandi á handbolta. Danirnir eru auðvitað mjög svekktir yfir því að hafa ekki náð ólympíusæti en þó glaðir yfir að hafa unnið bronsið. Ég var að sjá hverjir hafa verið valdir í stjörnuliðið og það kemur ekki á óvart að Michael Knudsen línumaður hafi komist í það enda var hann ógeðslega góður á mótinu. Reyndar var leiðinlegt að danski markmaðurinn Kasper Hvidt hafi ekki komist í liðið en hann spilaði mjög vel á mótinu og er líka dálítið sætur sem ætti auðvitað að skipta máli.
Síðan er hjá okkur stórleikur á morgun en þá mætum við toppliðunu og við ætlum okkur auðvitað að vinna. Síðast þegar við spiluðum við þær þá töpuðum við með 5 mörkum en við erum farnar að spila mun betur núna en við gerðum þá.
Áður en ég hætti þá verð ég að segja frá því að ég og Kristín ákváðum að skella okkur í bíó í kvöld á Calender Girls og ég verð nú að viðurkenna að þetta var alger peningasóun. Það er allavegana langt síðan að ég hef farið á svona langdregna mynd. Við mælum ekki með henni!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?